Viator ehf

Undirbúningur fyrir ljósmyndun húsnæðis

Við hjá Viator Sumarhúsamiðlun viljum endilega að þú fáir sem mest út úr útleigu sumarhússins þíns. Eitt það mikilvægasta við kynningu á húsinu þínu eru myndirnar. Þær þurfa að gefa góða mynd af húsinu þínu og vekja áhuga tilvonandi gesta á að bóka það. Þessar myndir birtast á heimasíðu Viator sem og hjá okkar öflugu söluaðilum erlendis. Góðar myndir vekja traust viðskiptavina okkar og þeir vita betur hvað þeir eru að bóka og á hverju þeir eiga von. Góðar myndir hjálpa líka gestunum að skipuleggja fríið sitt.

Hvernig undirbýrð þú eign þína undir ljósmyndun? Hér að neðan finnur þú helstu atriði sem við mælum með að þú hugir að.

Hvernig myndir þarftu að taka?

  • af húsinu utandyra
  • af húsinu innandyra
  • útsýni frá húsinu
  • nánasta umhverfi

Tæknileg atriði

Það er reynsla okkar að gestir gefi sér lengri tíma til að skoða húsið þitt því fleiri sem myndirnar eru. Því gildir að vera með gott úrval af myndum í stað margra mynda af næstum sama hlut. Einnig mælum við með að þú...

  • takir myndir án leifturljóss (EN: Flash).
  • takir myndir á láréttu formi (EN: landscape format).
  • hafir myndavélina stillta á hæstu mögulegu upplausn (EN: Large). T.d. þarf forsíðumyndin þín að vera a.m.k. 1.400x700px.

Mikilvægt varðandi forsíðumynd

Mikilvægt er að myndin af húsinu að utan sé tekin þannig að stærsti/mikilvægasti/fallegasti partur hússins sé hægra megin á mynd. Þetta er vegna þess að á heimasíðu www.viator.is er grænn lóðréttur borði vinstra megin sem skyggir á myndina þeim megin.

Sumar eða vetur?

Gott er að eiga myndir af húsinu á þeirri árstíð eða þeim árstíðum sem það er í útleigu. Fyrir veturinn er skemmtilegt að eiga norðurljósamyndir ef þær nást frá húsinu. En huggulegar vetrarmyndir teknar af eða frá húsinu koma einnig vel út, t.d. ef það er kamína utanhúss sem hægt er að njóta á fallegum vetrardegi. Á sumrin koma myndir af leiktækjum, fallegum sólpalli, morgunverðarborði á palli á góðum sumardegi, vínglasi við sólsetur, blómum, trjám og fallegu umhverfi mjög vel út.

Gullnar ábendingar

  • Sagt er að besti tími fyrir útimyndir séu klukkutíminn eftir sólarupprás og klukkutíminn fyrir sólsetur.
  • Taktu innimyndir í dagsbirtu og hleyptu birtunni inn með því að draga allar gardínur frá.
  • Taktu í burtu hluti eða raðaðu vel til að koma í veg fyrir óreiðu á myndunum. Það er reynsla okkar að því færri hlutir þeim mun hreinna virkar rýmið og auðveldara er að sjá sig fyrir sér í því. Auðvitað eru þín persónulegu áhrif eftir sem áður æskileg og ekki hika við að stilla fallega upp.
  • Ekki hafa fólk inni á myndunum, nema kannski í fjarlægð.
  • Taktu myndir af smáatriðum, t.d. fallegum hlutum eða notalegheitum sem þér finnast líkleg til að tilvonandi gestum falli vel í geð.
  • Taktu í burtu allt það sem ætti ekki að birtast á myndunum, t.d. dýra hluti, handtöskur, jakka o.s.frv.
  • Oft er betra að taka myndir inn í horn heldur en beint á vegg.

Svefnherbergi

  • Settu fallegt rúmteppi yfir berar dýnur eða búðu fallega um rúmið.
  • Taktu til á borðum, ekki hafa of mikið af hlutum í kring.
  • Gakktu frá þvotti.
  • Ef þú ert með opin fatahengi þá er best að hafa þau tóm.

Baðherbergi

  • Hreinsaðu spegla.
  • Hafðu sturtuhengi dregin frá.
  • Hafðu salernissetu niðri.
  • Brjóttu handklæði snyrtilega saman eða hengdu fallega upp.

Utanhúss

  • Raðaðu garðhúsgögnum eins og ef þau væru í notkun.
  • Raðaðu leikföng og öðrum lausamunum snyrtilega saman á einn stað.
  • Ekki hafa bíl í innkeyrslunni
  • Fjarlægðu allt lauslegt, óþarfa dót utandyra, s.s. byggingarefni, málningardósir og annað þess háttar.

Almennt gildir að í hvert sinn sem viðhald eða breytingar hafa átt sér stað á húsi/íbúð og það bætir ásýnd húss að innan eða utan er um að gera að taka nýjar myndir og senda okkur. Til dæmis ef hús og/eða handrið er nýmálað fá myndirnar allt annað yfirbragð.


info@viator.is
+354 544-8990
Viator ehf
Grensásvegi 5
108 Reykjavík
Ísland