Þegar sumarhúsaeigendur hafa ákveðið að stofna til samstarfs við Viator þurfa þeir að skila eftirfarandi upplýsingum og gögnum til Viator:
Grunnteikningu af húsinu á rúðustrikuðu blaði. Teikningin þarf ekki að vera mjög nákvæm en samt þannig að Viator sjái hvernig herbergjaskipan er og einnig helstu stærðarmál.
Upplýsingar um öryggisnúmer og brunavarnir í bústaðnum. Eru reykskynjarar, gasskynjarar, slökkvitæki, brunastigar, eldvarnarteppi í húsinu og hvar eru þessir hlutir staðsettir? Skrifleg yfirlýsing um að bústaðurinn uppfylli kröfur um brunavarnir er nauðsynleg. Viator mælir með því að eigendur láti brunaeftirlitið á viðkomandi stað gera úttekt á húsinu.
Skoðunarskýrslu sem eigendur eru beðnir um að fylla út þar sem fram koma upplýsingar um innanstokksmuni, eldhúsáhöld, garðhúsgögn ofl.
Leiðarlýsingu frá næsta þéttbýlisstað að bústaðnum með nákvæmum vegalengdum. Athugið að miða ekki við skilti í einkaeign, gáma o.þ.h. sem gæti verið fjarlægt fyrirvaralaust.
Upplýsingar um hvað þarf að gera við komu og brottför. T.d. hvar er skrúfað frá vatni, gasi og rafmagn sett á. Eru einhverjir hlutir sem eigendur óska sérstaklega eftir að leigjendur noti ekki (t.d. arinn eða bátur)? Á að skilja ísskáp eftir opinn, á hvaða hita á að stilla ofna við brottför.
Nákvæmar upplýsingar þurfa að berast skriflega ef uppþvottavél, þvottavél eða þurrkari er í húsinu, sama á við um heita potta og gufubað.
Mælst er til þess að hafa tímarofa á gufubaði, þannig að rafmagn slái út eftir 2 tíma.
Símanúmer og heimilisfang tengiliða sem hægt er að ná í ef ekki næst í eigenda. Þetta er nauðsynlegt komi upp bilun í húsi.
Staðfesting á skráningu heimagistingar hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins eða afrit af starfs- og rekstraleyfi eigi það við.