Áður en fyrstu gestir koma þarf leigusali að sjá til þess að húsið sé hreint og almennt í góðu ástandi. Allar rúður skulu vera heilar, lásar og lyklar í lagi, innanstokksmunir, áhöld og tæki/rafmagnstæki í lagi. Sérstaklega mikilvægt er að rúmdýnur, dýnuhlífar, sængur og koddar séu hrein og heil. Sé heitur pottur eða gufubað skal það vera tilbúið til notkunar. Við mælum eindregið með því að eigendur geri allsherjarhreingerningu á húsinu áður en fyrstu gestirnir koma í hús og aðra hreingerningu einhvern tíma á árinu. Tandurhreint og vel frágengið hús í upphafi leigutímabilsins skilar sér í betri umgengni og frágangi frá einum gesti til annars.
Viator býður upp á þjónustusíma alla daga frá kl. 08:00-22:00 sem gestir geta hringt í meðan á dvöl þeirra stendur. Komi upp kvartanir fá eigendur og Viator 24 tíma til þess að koma umkvörtunarefninu í lag, en líði lengri tími má búast við endurgreiðslukröfu frá gestinum. Ef eigandi eða fulltrúi hans eru ekki sjálfir í aðstöðu til þess að leysa vandamálið, leitast Viator við að finna laghenta og áreiðanlega menn á hverju svæði til þess að hlaupa til og kippa viðkomandi hlut í lag. Slíkar viðgerðir eru á kostnað eiganda.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að sumarhúsið sé tilbúið til notkunar á umsömdum leigutíma. Komi upp vandamál vegna seinkunar á byggingu eða vegna breytinga á húsinu, ber eigandinn ábyrgð gagnvart gesti og Viator vegna tjóns, kostnaðar og hugsanlegrar kröfu um skaðabætur sem verða af því að húsið er ekki tilbúið til notkunar á umsömdum tíma. Tilkynna skal allar meiriháttar framkvæmdir og breytingar til Viator þannig að við getum aðlagað okkar upplýsingar um húsið í tíma.
Sú ákvörðun að bjóða sumarhús til útleigu, er samvinnuverkefni eigenda þess og Viator og er sameiginlegt markmið beggja aðila að ná sem bestri nýtingu á því. Fyrir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst þarf Viator að vita hvenær sumarhúsin eru laus til útleigu. Á meðan samningur um samstarf við Viator er í gildi hefur eigandinn ekki heimild til þess að leigja húsið út á vegum annara milliliða og heldur ekki að leigja það beint út sjálfur. Þetta er mikilvægt vegna sölukerfa Viator og erlendu ferðaskrifstofanna sem bjóða Viator sumarhús á sínum markaðssvæðum. Ef eigandi óskar eftir því að leigja húsið öðrum aðilum er það háð samþykki Viator.
Eigandinn fylgist sjálfur með útleigu á húsi sínu beint á heimasíðu Viator en hann fær sérstakar aðgangsupplýsingar hjá fyrirtækinu. Það er sérstaklega mikilvægt að fylgjast vel með þegar eigandinn hefur í hyggju að nota húsið sjálfur með stuttum fyrirvara. Einnig er ávallt hægt að leita nánari upplýsinga hjá skrifstofu Viator í Reykjavík í síma 544 8990 eða með tölvupósti; info@viator.is.
Ef eigandi ákveður að selja sumarhúsið á meðan á samkomulaginu við Viator stendur þarf að tryggja að væntanlegur nýr eigandi yfirtaki þær skuldbindingar sem þegar eru komnar til.
Þegar sumarhúsaeigendur hafa ákveðið að stofna til samstarfs við Viator þarf viðkomandi að skila eftirfarandi upplýsingum og gögnum til Viator:
Öllum eigendum býðst að kaupa sérstök lyklabox með lykilnúmeri sem sett eru upp við aðaldyr sumarhússins. Eigandi afhendir Viator að auki einn lykil til varðveislu. Ef ekki er mögulegt að koma upp lyklaboxi við húsið afhendir eigandi Viator 10 lykla af sumarhúsinu í upphafi samningstímabilsins. Viator ber ábyrgð á þessum lyklum gagnvart eiganda og skilar þeim aftur við lok síðustu leigu eftir að samkomulaginu hefur verið sagt upp.
Ef upp koma neyðartilvik þurfa gestir að geta haft samband við viðbragðsaðila með öruggum og skjótum hætti. Landssamband sumarhúsaeigenda býður upp á öryggisnúmer fyrir hvern sumarbústað sem felur í sér nákvæma staðsetningu hússins. Sumarhúsaeigandi skuldbindur sig til að sækja um þetta öryggisnúmer og tilkynna það Viator um leið og það liggur fyrir. Þetta er þó ekki nauðsynlegt ef húsið stendur við götu í þéttbýli og er með húsnúmer. Viator ráðleggur sumarhúsaeigendum í sambandi við tryggingamál og brunamál. Eigandinn skuldbindur sig til þess að hafa slík mál í lagi.
Auk lögboðinnar brunatryggingar mælum við eindregið með því að sumarhúsaeigendur séu með sumarhúsatryggingu frá einhverju tryggingafélaganna, sem tryggir húsið sjálft og innbúið fyrir tjóni (innbrot, vatnstjón, óveðurstjón, glertjón og brunatjón). Athugið að inni í þessari tryggingu þarf ábyrgðartrygging húseigenda líka að vera innifalin. Dæmi um slíkt tjón er ef gestur slasast í húsinu t.d. ef stigi brotnar eða koja brotnar niður. Einnig er mikilvægt að húseigendur láti tryggingafélag sitt vita að húsið sé að einhverju leyti leigt út.